Gamla ljósmyndin: Big Shuggie

Morgunblaðið/Friðþjófur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á myndinni er Jóhannes Eðvaldsson aðgangsharður við mark Íra á Laugardalsvelli 21. september 1983 í undankeppni EM. Írar unnu 3:0 og voru með leikmenn í liðinu sem voru áberandi í ensku knattspyrnunni á þessum árum eins og Liam Brady, Frank Stapleton, Kevin Moran og Mark Lawrenson svo einhverjir séu nefndir.

Lawrenson sem varð Evrópumeistari með Liverpool ári síðar er í baráttu við Jóhannes á myndinni sem Friðþjófur Helgason tók og birtist í Morgunblaðinu daginn eftir leikinn. Janus Guðlaugsson og Lárus Guðmundsson eru einnig á myndinni. Á milli fjórtán og fimmtán þúsund manns sáu leikinn á Laugardalsvelli samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins. 

Jóhannes hóf meistaraflokksferilinn með Val árið 1968 og lék fyrir liðið á árunum 1968 til 1974. Þá lék hann með Cape Town City í Suður-Afríku, Holbæk í Danmörku, Tulsa í Bandaríkjunum, Hannover í Þýskalandi og Motherwell í Skotlandi og lauk ferlinum sem spilandi þjálfari Þróttar í efstu deild sumarið 1985.

Skrautfjöðurinn á atvinnumannaferli Jóhannesar var hins vegar árangur hans með hinu kunna skoska liði Glasgow Celtic. Jóhannes lék með liðinu 1975-1980 og varð skoskur meistari 1977 og 1979. Jóhannes lék 188 leiki með Celtic og skoraði í þeim 36 mörk en hann naut mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum félagsins og gekk undir viðurnefninu „Big Shuggie“ meðal þeirra.

Jóhannes lék 34 landsleiki fyrir Ísland, þar af 27 sem fyrirliði, og skoraði tvö mörk. Annað þeirra er eitt eftirminnilegasta mark í landsleikjasögu Íslands en það gerði hann með hjólhestaspyrnu í 2:1 sigrinum óvænta á Austur-Þýskalandi í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í júní 1975.

Í lok árs 1975 hlaut hann sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna og hafnaði auk þess í öðru sæti í kjörinu árið áður. 

mbl.is