Tveir íslenskir sóknarmenn voru á skotskónum með liðum sínum í norska bikarnum í fótbolta í dag.
Brynjólfur Anderson Willumsson gerði annað mark Kristiansund í 3:1-útisigri á Strindheim. Brynjólfur var í byrjunarliði síns liðs en fór af velli strax í kjölfar marksins.
Þá skoraði Hólmbert Aron Friðjónsson jöfnunarmark Lillestrøm í 2:1-útisigri á Junkeren. Hólmbert var í byrjunarliðinu og fór af velli í uppbótartíma.
Bjarni Mark Antonsson lék allan leikinn með Start í 3:2-sigri á Arendal á útivelli. Alfons Sampsted lék fyrstu 64 mínúturnar með Bodø/Glimt í 5:0-útisigri á Harstad.
Þá kom Samúel Kári Friðjónsson inn á sem varamaður á 61. mínútu er Viking vann Vard Haugesund á útivelli, 2:1. Patrik Sigurður Gunnarsson var hvíldur í dag.
Ari Leifsson lék fyrstu 72 mínúturnar með Strömsgodset er liðið tapaði fyrir Gjövik-Lyn, 3:2, eftir framlengingu.
Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi Molde vegna meiðsla er liðið vann Brattvåg á útivelli, 4:2.