Átta fyrir rétt vegna andláts Maradona

Diego Maradona er í guðatölu í Argentínu.
Diego Maradona er í guðatölu í Argentínu. AFP/Alejandro Pagni

Átta heilbrigðisstarfsmenn í Argentínu verða sóttir til saka vegna andláts knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona í nóvember árið 2020. Er þeim gefið að sök að hafa sýnt af sér gáleysi við umönnun Maradona sem hafi átt þátt í dauða hans.

Dómari hefur fyrirskipað að læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir átta mæti fyrir rétt vegna manndráps af gáleysi.

Maradona lést, sextugur að aldri, eftir að hafa fengið hjartaáfall. Hann hafði þá verið að jafna sig á heimili sínu eftir aðgerð vegna blóðtappa í heila.

Nokkrum dögum eftir að Maradona lést komu saksóknarar í Argentínu á fót rannsókn á læknunum og hjúkrunarfræðingunum sem sáu um umönnun hans.

Alls voru 20 sérfræðingar skipaðir í nefnd til þess að rannsaka andlátið og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að umönnun Maradona hafi einkennst af annmörkum og óreglu í stórum stíl. Umönnuninni hafi verið ábótavant og farið fram með óviðeigandi og kærulausum hætti.

Allir átta verða sóttir til saka fyrir manndráp af gáleysi. Allir hafa neitað sök.

Verði þau fundin sek gætu þau verið dæmd í 8-25 ára fangelsi. Réttarhöldunum hefur ekki verið fundin formleg dagsetning að svo stöddu.

mbl.is