Einn sá eftirsóttasti áfram í Þýskalandi

Christopher Nkunku fagnar einu af 35 mörkum sínum fyrir RB …
Christopher Nkunku fagnar einu af 35 mörkum sínum fyrir RB Leipzig á síðasta tímabili. AFP/Ronny Hartmann

Knattspyrnumaðurinn Christopher Nkunku, sóknarmaður þýska félagsins RB Leipzig, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við félagið og bindur þar með enda á vangaveltur um framtíð sína.

Nkunku, sem er 25 ára franskur landsliðsmaður, stóð sig stórkostlega á síðustu leiktíð með Leipzig þar sem hann skoraði 35 mörk og lagði upp 19 mörk að auki í 50 leikjum í öllum keppnum.

Var Nkunku því einstaklega eftirsóttur þar sem lið á við Chelsea, Manchester United og uppeldisfélag hans París Saint-Germain voru sögð áhugasöm um að festa kaup á honum í sumar.

Hann hjálpaði Leipzig að vinna þýsku bikarkeppninna í síðasta mánuði og kvaðst hæstánægður með að halda kyrru fyrir hjá félaginu þar sem hann vilji halda áfram að bæta sig og hjálpa liðinu að bæta sig.

mbl.is