Tveir leikmenn Sheffield United kærðir

Oli McBurnie er annar leikmannanna sem hefur verið kærður.
Oli McBurnie er annar leikmannanna sem hefur verið kærður. AFP

Knattspyrnumennirnir Rhian Brewster og Oli McBurnie, sóknarmenn enska B-deildarliðsins Sheffield United, hafa verið kærðir af lögreglunni í Nottinghamskíri í tengslum við atvik sem átti sér stað eftir að stuðningsmenn Nottingham Forest réðust inn á City Ground-völlinn eftir leik liðanna.

Forest og Sheffield United mættust í undanúrslitum umspils um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði og hafði Forest betur í vítaspyrnukeppni á velli sínum í síðari leik liðanna.

Þar hljóp til að mynda stuðningsmaður Forest inn á völlinn og skallaði Billy Sharp, annan sóknarmann Sheffield United, af öllu afli í andlitið svo sauma þurfti nokkur spor í vör Sharps.

Sá maður var handtekinn og situr nú í fangelsi eftir að hafa verið dæmdur fyrir líkamsárás.

Brewster og McBurnie sáust eiga í deilum við stuðningsmenn Forest á meðann innrásinni á völlinn stóð og fóru í skýrslutöku til lögreglunnar vegna þess.

Ákvað lögreglan í Nottinghamskíri í kjölfarið að leggja fram kæru í garð Brewsters og McBurnie.

Í yfirlýsingu frá Sheffield United sagði að báðir leikmenn hafni alfarið ásökununum í sinn garð, auk þess sem félagið lýsti yfir gífurlegum vonbrigðum yfir því að leikmennirnir, sem hafi af fúsum og frjálsum vilja farið í skýrslutökur, hafi verið kærðir.

mbl.is