Leggur skóna á hilluna vegna tengsla við nýnasista

Martin Hinteregger í leik með austurríska landsliðinu.
Martin Hinteregger í leik með austurríska landsliðinu. AFP/Dominik Angerer

Knattspyrnumaðurinn Martin Hinteregger, austurrískur landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur fengið samningi sínum hjá þýska 1. deildarliðinu Eintracht Frankfurt rift og lagt skóna á hilluna, aðeins 29 ára að aldri. Ástæðan fyrir því eru tengsl Hintereggers við nýnanista.

Hinteregger skipulagði fótboltamót, Hinti-bikarinn, í heimabæ sínum í Austurríki, Sirnitz, í samstarfi við félaga sinn Heinrich Sickl, sem er nýnasisti. Mótið var fyrst haldið á síðasta ári og er fyrir unga sem aldna.

Sickl var hluti af nýnasistasamtökunum Nationalische Front á unglingsárum og var síðar þingmaður hjá FPÖ, stjórnmálaflokki sem er lengst til hægri.

Mótið var haldið um síðustu helgi á landi sem Sickl og fjölskylda hans eiga. Á sama landi hafa ýmsir viðburðir á vegum nýnasistahreyfingarinnar Identitäre Bewegung Österreich verið haldnir.

Í aðdraganda Hinti-bikarsins um síðustu helgi var bent á tengsl Sickl við nýnasistahreyfingar og sætti samstarf Hintereggers við hann mikilli gagnrýni.

Í kjölfarið tilkynnti Hinteregger að hann væri hættur knattspyrnuiðskun, að hann fordæmi allar öfgar til hægri og að samstarfinu við Sickl hafi verið slitið; Hinti-bikarinnar færi fram annars staðar en á landi Sickl og fjölskyldu að ári.

„Ég fordæmi harðlega hægri sinnaða, ólíðandi og mannfjandsamlega hugmyndafræði. Það vita allir þeir sem þekkja mig. Í bili þarf ég að draga mig í hlé og koma skikk á líf mitt,“ sagði Hinteregger við heimasíðu Eintrach Frankfurt.

„Undanfarnar vikur hafa kviknað margar spurningar um Hinti-bikarinn sem ég hef keyrt áfram af mikilli ástríðu. Samstarfinu [við Sickl] hefur verið hætt og ég vil biðjast velvirðingar á því. Mér þykir mjög fyrir þessu,“ bætti hann við.

Markus Krösche, íþrótastjóri Eintracht Frankfurt, sagði ákvörðun Hintereggers hafa komið félaginu í opna skjöldu en að það sýni henni skilning.

„Ákvörðun Martins kom á óvart en hann hefur gefið okkur  upp ástæður sínar fyrir henni á skýran og sannfærandi hátt. Því var það sjálfsagt að verða við beiðni hans, sem er sár fyrir okkur íþróttalega séð en skiljanleg á persónulegum nótum,“ sagði Krösche í samtali við heimasíðu félagsins.

Bætti hann því við að dyrnar stæðu Hinteregger ávallt opnar skyldi honum snúast hugur og vilja taka fram skóna að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert