Lít ekki á mig sem náttúrulegan leiðtoga

José Mourinho stýrði Roma til sigurs í Sambandsdeild UEFA á …
José Mourinho stýrði Roma til sigurs í Sambandsdeild UEFA á síðasta tímabili. AFP/Ozan Kose

Portúgalinn José Mourinho segist aldrei hafa litið á sjálfan sig sem náttúrulegan leiðtoga en að eðli vinnu hans sem knattspyrnustjóra þvingi hann til þess að sýna af sér leiðtogahæfni.

„Það er í eðli mínu að vera í fótbolta. Það er í eðli þess sem vill vera hluti af fótbolta til margra ára. Ef þú ert ekki ástfanginn af fótbolta og þú afrekar allt sem hægt er að afreka í fótbolta þá hættirðu bara og nýtur verðlaunapeninganna þinna.

Og nýtur lífs þíns utan fótbolta. En ef þú elskar fótbolta þá viltu ekki hætta. Ef þú elskar fótbolta þá líður þér ekki eins og þú sért að eldast.

Þér líður eins og þú sért ferskur, eins og þú sért ungur og sú tilfinning helst allt til þinna síðustu daga. Þannig að hvatningin er hluti af DNA-inu,“ sagði Mourinho í ítarlegu viðtali við Sky Sports.

Ef marka má ummæli hans í gegnum tíðina er sjálfsálit Mourinhos afar hátt og innistæðan talsverð. Hefur hann unnið til fjölda titla með Porto, Chelsea, Real Madríd, Inter Mílanó og nú síðast Roma, þar sem Mourinho er knattspyrnustjóri í dag.

Þrátt fyrir frábæran stjóraferil þar sem margir af stærstu titlum Evrópu hafa litið dagsins ljós lítur Mourinho þó ekki á sig sem náttúrulegan leiðtoga.

„Ég myndi ekki segja það nei. Þegar ég var ungur myndi ég raunar segja að ég hafi verið þögull leiðtogi. En starf mitt gerir mér ekki kleift að vera þögull leiðtogi, sem er eðli mitt.

Ég þarf að vera í sviðsljósinu öllum stundum, ég þarf að tjá mig í gegnum fjölmiðla öllum stundum og það er mjög stór og þýðingarmikill hluti af þessu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert