Sagan að endurtaka sig hjá Pogba

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Paul Pogba, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er nálægt því að skrifa undir hjá Juventus, samkvæmt Sky Sports á Englandi.

Frakkinn er í fríi á Miami um þessar mundir á meðan forráðamenn Juventus undirbúa fjögurra ára samning. United lét Pogba fara á frjálsri sölu til Juventus árið 2012, þegar leikmaðurinn var aðeins 19 ára gamall.

Pogba sló í gegn á Ítalíu og vann fjóra Ítalíumeistaratitla í röð ásamt bikarmeistaratitlum með Juventus, áður en United keypti hann aftur til félagsins, þá á rúmlega 89 milljónir punda, sem var metfé fyrir knattspyrnumann á þeim tíma.

Nú er sagan að endurtaka sig, því að samningur Pogba hjá United rennur út þann 1. júlí næstkomandi og er Frakkinn aftur á leiðinni til Juventus á frjálsri sölu.

mbl.is