Lærisveinar Brynjars enn án sigurs á botninum

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Örgryte.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Örgryte. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska B-deildarliðið Örgryte, sem Brynjar Björn Gunnarsson þjálfar, er enn í vondri stöðu á botni deildarinnar eftir að hafa gert 2:2-jafntefli við Jönköping á útivelli í kvöld.

Örgryte komst í tvígang yfir í leiknum en Jönköping jafnaði metin í bæði skiptin.

Einhver bið verður því ennþá á því að Örgryte vinni sinn fyrsta deildarsigur á tímabilinu. Liðið er á botni B-deildarinnar með 5 stig eftir að hafa gert fimm jafntefli og tapað sex sinnum í 11 leikjum.

Annar Íslendingur var í eldlínunni í deildinni í kvöld.

Böðvar Böðvarsson kom inn á sem varamaður hjá Trelleborg á 77. mínútu þegar liðið vann magnaðan 2:1-endurkomusigur á toppliði Halmstad.

Hann kom inn á þegar Halmstad leiddi með einu marki en Trelleborg tókst svo að jafna metin á 86. mínútu. Sigumark Trelleborg kom svo á annarri mínútu uppbótartíma.

Trelleborg er nú í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert