Umspilssæti fyrir HM tryggt

Alexandra Jóhannsdóttir í skallaeinvígi við Jill Roord í leik Íslands …
Alexandra Jóhannsdóttir í skallaeinvígi við Jill Roord í leik Íslands og Hollands í september síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu fer að minnsta kosti í umspil um laust sæti á HM 2023.

Þetta varð ljóst eftir að Holland vann 3:0-sigur á Hvíta-Rússlandi í C-riðli undankeppni HM, riðli Íslands, í kvöld.

Jill Roord, samherji Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg, skoraði fyrsta mark Hollands á 13. mínútu og Aniek Louwen, leikmaður Chelsea, bætti við öðru marki eftir tæplega klukkutíma leik.

Undir lokin innsiglaði Lineth Beerensteyn, nýr liðsmaður Juventus líkt og Sara Björk Gunnarsdóttir, sigurinn með þriðja markinu.

Sigur Hollands þýðir að Ísland getur ekki hafnað neðar en í öðru sæti riðilsins, sem er umspilssæti, og á raunar á enn góða möguleika á að hafna í efsta sæti hans og fara þannig beint á HM, sem fer fram í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Holland er í efsta sæti C-riðils sem stendur, tveimur stigum fyrir ofan Ísland, en á aðeins einn leik eftir, gegn Íslandi á sínum heimavelli. Ísland á tvo leiki eftir þar sem það mætir Hvíta-Rússlandi áður en liðið heldur til Hollands í september.

Íslenska kvennalandsliðið tekur senn þátt á fimmta Evrópumóti sínu í sögunni, EM 2022 á Englandi, í næsta mánuði, en hefur aldrei tekist að tryggja sér sæti á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert