Mikael vekur áhuga ítalskra félaga

Mikael Anderson í leik með íslenska landsliðinu fyrr í mánuðinum.
Mikael Anderson í leik með íslenska landsliðinu fyrr í mánuðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikael Anderson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins AGF, er undir smásjá nokkurra ónefndra ítalskra A-deildarfélaga og gæti því fært sig um set í sumar.

Bold.dk greinir frá.

Mikael var einn af ljósum punktum AGF á slöku tímabili hjá liðinu, sem endaði með fallbaráttu, og skoraði til að mynda fimm mörk í 21 leik í dönsku úrvalsdeildinni.

Lauk þar með fyrsta tímabili Mikaels hjá AGF, sem var keyptur frá Midtjylland í ágúst á síðasta ári.

Samkvæmt Bold.dk kostaði Mikael fúlgur fjár en fari svo að eitthvert ítölsku félaganna beri víurnar í hann myndi AGF mokgræða á sölunni.

Söluupphæðin sem nefnd er í því samhengi er 20 milljónir danskra króna, rúmlega 374 milljónir íslenskra króna, en Mikael var keyptur á um 5 milljónir danskra króna, um 93,5 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi.

Félög frá Þýskalandi og Englandi eru einnig áhugasöm um Mikael, sem á 14 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.

Engin formleg tilboð hafa enn borist í Mikael en búist er við því að það breytist í sumar.

mbl.is