Sænsk stórstjarna verður liðsfélagi Guðnýjar hjá AC Milan

Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir eigast við í landsleik.
Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir eigast við í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska knattspyrnukonan Kosovare Asllani hefur skrifað undir tveggja ára samning við ítalska stórveldið AC Milan, sem íslenska landsliðskonan Guðný Árnadóttir leikur með.

Asllani kemur frá Real Madríd, þar sem hún lék undanfarin tvö tímabil.

Hún mætti Breiðabliki í tvígang síðastliðið haust þegar liðin voru saman í riðli í Meistaradeild Evrópu og skoraði tvívegis í leik liðanna á Kópavogsvelli.

Asllani er öflugur sóknarmaður sem hefur skorað 43 mörk í 160 landsleikjum fyrir Svíþjóð. Hún hefur tekið þátt á átta stórmótum með Svíum og er á leið á sitt níunda í næstu viku, EM 2022 á Englandi.

Á ferli sínum hefur hún leikið fyrir fleiri stórlið á við Manchester City, þar sem hún varð Englandsmeistari árið 2016, og þá raðaði hún inn mörkum fyrir París Saint-Germain frá 2012 til 2016.

Hún hóf feril sinn hjá Linköping í Svíþjóð og vann þar sænska meistaratitilinn í tvígang, árin 2007 og 2009.

Asllani er 32 ára gömul og reynir nú fyrir sér á Ítalíu í fyrsta skipti.

AC Milan hafnaði í þriðja sæti í ítölsku A-deildinni á síðasta tímabili en er stórhuga fyrir næsta tímabil eins og samningurinn við Asllani gefur til kynna.

mbl.is