Tekur við Böskunum í þriðja sinn

Ernesto Valverde er mættur aftur til Bilbao.
Ernesto Valverde er mættur aftur til Bilbao. AFP

Ernesto Valverde hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri baskneska knattspyrnufélagsins Athletic Bilbao, sem leikur í spænsku 1. deildinni, í þriðja sinn á þjálfaraferli sínum.

Valverde, sem lék sjálfur einn landsleik fyrir Baskaland, sjálfsstjórnarsvæði á Norður-Spáni, og sömuleiðis spænska landsliðið, hóf knattspyrnustjóraferil sinn fyrir 20 árum þegar hann stýrði varaliði Bilbao tímabilið 2002/2003.

Sumarið 2003 tók hann svo við stjórnartaumunum hjá aðalliðinu og stýrði því til 2005. Valverde tók aftur við liðinu árið 2013 og stýrði því þá til 2017, þegar hann var ráðinn til Barcelona.

Hann var rekinn þaðan í janúar 2020 og tekur nú við Bilbao þriðja sinni.

Valverde er reynslumikill knattspyrnustjóri sem hefur einnig stýrt Villarreal, Valencia, Espanyol og gríska liðinu Olympiacos á ferli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert