Við eigum harma að hefna

Blikastelpur að fagna bikarmeistaratitlinum 2021.
Blikastelpur að fagna bikarmeistaratitlinum 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið var í Mjólkurbikarnum á hádegi í dag. Bikarmeistarar Breiðabliks fara í heimsókn á Selfoss þann 13. ágúst í undanúrslitum.

Í pottinum í undanúrslitum kvenna voru Valur, Breiðablik, Stjarnan og Selfoss. Öll þessi lið hafa orðið bikarmeistarar. Breiðablik vann bikarinn á síðasta tímabili í leik á móti Þrótti R. en Breiðablik sló Þrótt út í átta liða úrslitum þetta árið. 

Drátturinn fór þannig fram að fréttamaðurinn Bogi Ágústson dró tvö heimalið og svo komu fulltrúar liðanna upp og drógu mótherja. Liðin sem fengu heimaleik voru Selfoss og Stjarnan.

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Selfoss var fulltrúi Selfoss á staðnum og dró Breiðablik.

„Mér finnst lykilatriði að við fengum heimaleik, ég er ótrúlega ánægð með það. Það er stór plús fyrir okkur og ég er spennt að geta mynda stemmingu í bæjarfélaginu.

Við eigum harma að hefna eftir að hafa tapað fyrir þeim í deildinni, gott að hafa auka hvatningu. Maður þarf að fara einhverja leið í úrslitaleikinn.

Öll liðin í pottinum eru mjög sterk og við hefðum þurft að mæta þeim á einhverjum tímapunkti svo af hverju ekki í næsta leik“ segir Bára en Selfoss tapaði deildarleiknum á móti Breiðabliki 0:1.

Vonbrigði að vera ekki í landsliðshópnum

Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks var einn af fulltrúum þeirra á staðnum. „Ég hefði alltaf kosið að fá heimaleik það er mun skemmtilegra en þetta er bara svona og við erum spenntar.

Þetta eru fjögur af sterkustu liðum í deildinni núna svo þetta voru alltaf að fara að vera erfiðir leikir sama hvað," segir Ásta.

Tveir liðsfélagar Ástu Eir eru í A-landsliðshópnum fyrir EM, þær Telma Ívarsdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir. Margir fyrrum liðsfélagar Ástu eru einnig í hóp. Ásta átti sterkt tímabil í fyrra og var mjög örugg í varnarlínu Breiðabliks. „Það voru mikil vonbrigði að vera ekki í hóp, það er búið að vera markmið að komast inn og mér fannst ég hafa gert nóg.

Stundum nær maður ekki markmiði sinu og það er líka allt í lagi, það lætur mann bara vilja gera meira, þetta er frábær hópur og ég er mjög spennt að fylgjast með þeim.“

mbl.is