Kamerúninn knái til Mílanó

André Onana í leik með Ajax.
André Onana í leik með Ajax. AFP

Kamerúnski markvörðurinn André Onana er genginn í raðir ítalska knattspyrnufélagsins Inter Mílanó. Kemur hann á frjálsri sölu frá Ajax, þar sem hann hefur leikið undanfarin sjö ár.

Onana missti byrjunarliðssæti sitt hjá Ajax í kjölfar þess að hann var dæmdur í 12 mánaða keppnisbann, sem var svo stytt í níu mánuði eftir áfrýjun, fyrir að neita ólöglegra lyfja.

Alls lék hann 214 leiki í öllum keppnum fyrir Ajax. Onana er þá aðalmarkvörður Kamerún og hjálpaði liðinu að ná í þriðja sæti á Afríkumótinu á heimavelli í febrúar síðastliðnum.

Honum var boðinn nýr samningur hjá Ajax en ákvað að hafna tilboði Hollandsmeistaranna og reyna fyrir sér á nýjum slóðum.

Onana, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir fimm ára samning við Inter og er ætlað að vera arftaki hins 37 ára gamla Slóvena, Samir Handanovic, til frambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert