Landsliðsþjálfari opnar sig um kynferðisofbeldi sem hún var beitt

Vera Pauw, landsliðsþjálfari Írlands.
Vera Pauw, landsliðsþjálfari Írlands. AFP

Vera Pauw, hollenskur landsliðsþjálfari írska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur opnað sig um gróft kynferðisofbeldi sem hún var beitt af starfsmönnum hollenska knattspyrnusambandsins þegar hún var leikmaður kvennalandsliðsins og síðar landsliðsþjálfari þess.

Pauw, sem er 59 ára, nefnir þrjú mismunandi tilvik, þar af eina nauðgun er hún var leikmaður í hollenska landsliðinu.

„Í 35 ár hef ég haldið leyndarmáli frá veröldinni, fjölskyldu minni, liðsfélögum mínum, leikmönnum mínum, kollegum mínum og, get ég núna viðurkennt, sjálfri mér.

Jafnvel þeir sem standa mér næst vissu ekki af nauðguninni sem ég varð fyrir af hendi hátt setts starfsmanns innan knattspyrnuhreyfingarinnar þegar ég var ungur leikmaður. Síðar var ég beitt kynferðisofbeldi af tveimur mönnum til viðbótar.

Allir þrír voru starfsmenn hollenska knattspyrnusambandsins þegar þessi atvik áttu sér stað. Aðeins þeir sem ég treysti hafa vitað af því kerfisbundna kynferðislega ofbeldi, misbeitingu valds, einelti, þvingunum, einangrun og upplognum sökum sem ég varð fyrir sem leikmaður og landsliðsþjálfari hjá hollenska knattspyrnusambandinu þar til nú,“ skrifaði Pauw í færslu á twitteraðgangi sínum í gær.

Hún bætti því við að undanfarin ár hafi hún reynt að fá úr málum sínum skorið hjá fótboltayfirvöldum í Hollandi án árangurs.

„Sumt fólk vill heldur þagga niður í nauðguninni og kynferðisofbeldinu í minn garð í stað þess að veita mér þann stuðning sem ég þarf á að halda með því að opinbera þessa sögu fyrir veröldinni. Ég get ekki lengur tekið þátt í þeirri þöggun.“

Pauw sagði að í kjölfar þess að hún hafi ekki fengið viðunandi viðbrögð frá hollenska knattspyrnusambandinu um að koma rannsókn sambandsins almennilega í gang eftir að hún tilkynnti um ofbeldið í sinn garð í fimmta skipti hafi hún ákveðið að tilkynna öll þrjú tilvikin til hollensku lögreglunnar.

Hún býst við því að upplifa aukinn sársauka í framhaldinu þar sem sviðsljósið beinist nú að Pauw og einkalífi hennar en vonast eftir því að saga sín geti hvatt aðra leikmenn og þjálfara til þess að koma fram og deila sínum sögum.

Írska knattspyrnusambandið sagðist í yfirlýsingu styðja Pauw í einu og öllu.

Hollenska knattspyrnusambandið gaf sömuleiðis út yfirlýsingu þar sem sagði að það hafi framkvæmt rannsóknir á sínum tíma í samvinnu við Pauw og gekkst við því að hafa gert mistök í fortíðinni, sem voru útlistuð í skýrslu á síðasta ári.

Við göngumst við þeim mistökum sem var greint frá í skýrslunni og þetta hefði ekki átt að koma fyrir hana.

Það er óásættanlegt að Vera hafi ekki upplifað það starfsöryggi sem hún átti fullan rétt á þegar þetta gerðist,“ sagði í yfirlýsingu hollenska knattspyrnusambandsins.

Sambandið kvaðst munu grípa til aðgerða samkvæmt því sem lagt var til í ofangreindri skýrslu.

mbl.is