Hólmbert skoraði í endurkomusigri

Hólmbert Aron Friðjónsson á landsliðsæfingu.
Hólmbert Aron Friðjónsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmbert Aron Friðjónsson fékk tækifæri í byrjunarliði Lilleström þegar liðið heimsótti Brynjólf Willumsson og félaga í botnliði Kristiansund. Hólmbert nýtti tækifærið vel og skoraði í 3:1-sigri Lilleström.

Bendik Bye kom Kristiansund í forystu á 20. mínútu og leiddu heimamenn með einu marki í leikhléi.

Á 71. mínútu  jafnaði Akor Adams metin fyrir Lilleström og skoraði svo annað mark sitt á 84. mínútu.

Hólmbert Aron innsiglaði svo sigurinn þremur mínútum síðar.

Lék hann allan leikinn í fremstu víglínu Lilleström eftir að hafa talsvert þurft að verma varamannabekkinn í deildinni.

Af bekknum hefur Hólmbert þó komið inn á og skorað nokkur mörk í deildinni auk þess að raða inn mörkum í norsku bikarkeppninni.

Brynjólfur kom inn á sem varamaður hjá Kristiansund á 78. mínútu.

Ari Leifsson lék þá allan leikinn í vörn Strömsgodset þegar liðið tapaði 0:1 fyrir Aalesund á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert