Ítalskur meistari til Barcelona

Franck Kessie hefur leikið með AC Milan í fimm ár …
Franck Kessie hefur leikið með AC Milan í fimm ár og varð meistari með liðinu í vor. AFP/Filippo Monteforte

Barcelona hefur gengið endanlega frá samningum við knattspyrnumanninn Franck Kessie sem kemur til félagsins frá AC Milan án greiðslu.

Kessie er 25 ára gamall miðjumaður frá Fílabeinsströndinni sem átti frábært tímabil á Ítalíu í vetur þegar AC Milan tryggði sér ítalska meistaratitilinn. Hann skoraði sjö mörk í 39 mótsleikjum fyrir liðið á tímabilinu sem var hans fimma með félaginu frá því hann kom þangað frá Atalanta árið 2017.

Kessie hefur leikið allan sinn feril á Ítalíu en hann kom 17 ára gamall til Atalanta frá heimalandi sínu. Hann á að baki 204 leiki í A-deildinni og hefur skorað í þeim 41 mark.  Þá hefur Kessie leikið 58 landsleiki fyrir Fílabeinsströndina og skorað í þeim sex mörk.

mbl.is