Jón Dagur með þriggja ára samning í Belgíu

Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Ísrael í síðasta …
Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Ísrael í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður í knattspyrnu hefur samið til þriggja ára við belgíska A-deildarfélagið OH Leuven en félagið skýrði frá þessu í dag.

Jón Dagur, sem er 23 ára gamall kantmaður, hefur leikið í Danmörku frá árinu 2018 en hann hafði áður verið í röðum Fulham á Englandi í þrjú ár eftir að hafa farið þangað 16 ára gamall frá HK.

Jón lék með Vendsyssel og síðan með AGF í þrjú ár en hann ákvað að framlengja ekki  samning sinn við félagið eftir síðasta tímabil.

„Jón Dagur er mjög vel spilandi vinstrikantmaður, hefur nef fyrir markaskorun og gefur margt af sér fyrir sóknarleikinn frá vinstri kantinum. Sem íslenskur landsliðsmaður kemur hann líka til okkar með alþjóðlega reynslu," segir Marc Brys, yfirþjálfari OH Leuven, á vef félagsins.

Jón Dagur hefur leikið 21 A-landsleik og skorað fjögur mörk en tvö þeirra  gerði hann í heimaleikjum Íslands í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði, gegn Albaníu og Ísrael.

OH Leuven hafnaði í ellefta sæti af átján liðum í belgísku A-deildinni á síðasta tímabili. Rúnar Alex Rúnarsson, samherji Jóns í íslenska landsliðinu, var aðalmarkvörður liðsins, í láni frá Arsenal, en er farinn aftur til enska félagsins. Áður lék Stefán Gíslason með liðinu á árunum 2012 til 2014.

mbl.is