Segja Gylfa á leið til Tyrklands losni hann úr farbanni

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gæti verið á leið til tyrkneska stórveldisins Galatasaray, að því gefnu að hann losni úr farbanni sem hann sætir sem stendur vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi á Englandi.

Þetta kemur fram á twitteraðgangnum As Marca, sem tengist þó ekki spænska fjölmiðlinum, en sérhæfir sig í félagaskiptum tengdum tyrkneskum félögum og leikmönnum.

Þar segir að Gylfi Þór sé búinn að samþykkja tveggja ára samning að andvirði fjögurra milljóna evra yfir samningstímann.

Samningurinn við Galatasaray sé þó háður því hvort hann losni úr farbanni.

Samningur Gylfa Þórs við Everton rann út í lok síðasta mánaðar. Lék hann ekkert með liðinu á síðasta tímabili eftir að hann var handtekinn vegna gruns um ofangreint brot.

Gylfa Þór var sleppt lausum gegn tryggingu en hefur verið í farbanni frá Englandi allar götur síðan.

Þann 16. júlí næstkomandi rennur farbannið út en það gæti þó verið framlengt eins og bresk lögregluyfirvöld hafa gert nokkrum sinnum undanfarið tæpt ár.

mbl.is