Kristall: „Seinna gula spjaldið var heimskulegt“

Kristall Máni Ingason.
Kristall Máni Ingason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristall Máni Ingason, sóknarmaður Víkings úr Reykjavík, skoraði mark fyrir liðið í 2:3-tapi gegn Malmö í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Fékk hann svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt strax eftir markið eftir að hann sussaði á stuðningsmenn Malmö.

„Seinna gula spjaldið var bara heimskulegt. Ég vissi ekki að ég væri að gera eitthvað rangt. Þetta var heimskulegt, en svona er þetta,“ sagði Kristall Máni í samtali við sænska miðilinn Expressen eftir leik.

Aðspurður sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann gæti fengið gult spjald fyrir svona fagnaðarlæri.

„Nei, ég vissi ekki að ég myndi fá gult spjald fyrir það. Ef það er þannig þá tek ég það á mig.“

Kristall Máni var þá spurður hvað hafi farið í gegnum huga hans þegar hann ákvað að fagna með því að sussa á stuðningsmenn Malmö.

„Ég hugsaði bara að ég væri búinn að skora mark og var hæstánægður með það. Tilfinningarnar tóku yfir. Ég hefði ekki gert þetta hefði ég vitað að ég gæti fengið gult spjald fyrir það,“ sagði hann einnig.

mbl.is