Andri lánaður til Nijmegen

Andri Fannar Baldursson í leik með íslenska 21-árs landsliðinu í …
Andri Fannar Baldursson í leik með íslenska 21-árs landsliðinu í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andri Fannar Baldursson landsliðsmaður í knattspyrnu hefur verið lánaður frá Bologna á Ítalíu til hollenska úrvalsdeildarliðsins NEC Nijmegen.

Andri, sem er tvítugur, hefur leikið 15 leiki fyrir Bologna í ítölsku A-deildinni en var í láni hjá FC Köbenhavn í Danmörku á síðasta tímabili. Þar lék hann aðeins þrjá leiki í úrvalsdeildinni og missti nokkuð úr vegna meiðsla.

Andri hefur leikið níu A-landsleiki fyrir Íslands hönd en hann spilaði með 21-árs landsliðinu í sigurleikjunum þremur í undankeppni EM í síðasta mánuði.

NEC Nijmegen hafnaði í ellefta sæti af átján liðum í hollensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Þrír Íslendingar hafa leikið með aðalliði félagsins, allir á árunum 2012 til 2015, en það eru Guðlaugur Victor Pálsson, Kristján Gauti Emilsson og Hannes Þór Halldórsson. Þá léku Adam Örn Arnarson og Daði Bergsson um svipað leyti með unglinga- og varaliðum félagsins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert