Arftaki Haalands fundinn

Sebastien Haller fagnar marki fyrir Ajax.
Sebastien Haller fagnar marki fyrir Ajax. AFP/Maurice van Steen

Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund tilkynnti í dag að gengið hefði verið frá kaupunum á framherjanum Sebastien Haller  frá Hollandsmeisturum Ajax og samið við hann til fjögurra ára.

Hann á að fylla stórt skarð hjá Dortmund en Haller kemur þar í staðinn fyrir norska markaskorarann Erling Braut Haaland sem var seldur til Manchester City í sumar.

Haller er 28 ára gamall, fæddur og uppalinn í Frakklandi og lék með öllum yngri landsliðum Frakka, en gerðist síðan landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar fyrir tveimur árum og hefur skorað fjögur mörk í fyrstu fimmtán landsleikjum sínum.

Haller skoraði 32 mörk í 50 leikjum fyrir Ajax í hollensku úrvalsdeildinni og samtals 47 mörk í 66 mótsleikjum en hann lék með liðinu í hálft annað ár eftir að það keypti hann af enska liðinu West Ham.

mbl.is