Messias verður áfram í Mílanó

Junior Messias, til hægri, eftir leik með AC Milan í …
Junior Messias, til hægri, eftir leik með AC Milan í vor. AFP/Miguel Medina

Ítalíumeistarar AC Milan hafa tryggt sér þjónustu brasilíska knattspyrnumannsins Junior Messias með því að kaupa hann af Crotone en hann var í láni hjá AC Milan á síðasta tímabili.

Messias er 31 árs gamall miðju- eða  sóknarmaður sem hafði leikið í neðri deildunum á Ítalíu í sex ár þegar AC Milan fékk hann lánaðan síðasta sumar, með kauprétti að ári liðnu. Þann kauprétt hefur félagið nú nýtt  sér.

Saga Messias er sérstök en hann hann flutti til Ítalíu frá Brasilíu ásamt eiginkonu og syni fyrir ellefu árum þar sem hann vann hjá flutningafyrirtæki og spilaði með áhugamannaliði í frístundum. Fimm árum síðar hóf hann að spila með D-deildarliði og hefur síðan klifið deildirnar hverja á fætur annarri. Hann fór með Crotone upp í A-deildina vorið 2020 og lék þar eitt tímabil áður en hann var lánaður til AC Milan í fyrra.

Hann lék 32 mótsleiki með AC Milan í vetur, 26 þeirra í A-deildinni, og skoraði sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert