Hörður kominn til Grikklands

Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu.
Hörður Björgvin Magnússon í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur skrifað undir tveggja ára samning hjá gríska úrvalsdeildarliðinu Panathinaikos.

Hörður Björgvin, sem er 29 ára gamall, kemur á frjálsri sölu frá CSKA Moskvu þar sem samningur hans var runninn út. Þar lék hann undanfarin fjögur tímabil.

Áður hafði Hörður Björgvin verið á mála hjá Bristol City og Juventus, þar sem hann var lánaður til Spezia og Cesena, og hóf feril sinn hjá Fram hérlendis.

Panathinaikos hafnaði í fjórða sæti í grísku deildinni á síðasta tímabili og vann grísku bikarkeppnina.

Hörður Björgvin verður annar Íslendingurinn sem mun spila fyrir Panathinaikos. Helgi Sigurðsson lék með liðinu frá 1999 til 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert