Fengu tíu daga fyrirvara

Danir fagna síðara marki sínu í úrslitaleiknum 1992.
Danir fagna síðara marki sínu í úrslitaleiknum 1992. AFP/Patrick Hertzog

Á þessum árstíma eru gjarnan stórmót landsliða í knattspyrnu. HM 2022 væri eflaust hafið ef ekki væri fyrir þær sakir að gestgjafarnir eru í Katar og vegna veðurs fer keppnin fram í lok árs. EM kvenna fer hins vegar fram á enskri grundu eins og rækilega hefur verið fjallað um í miðlum Árvakurs. 

Þrjátíu ár eru liðin frá sigri Dana á EM karla í knattspyrnu en árangurinn er einn sá óvæntasti í sögu keppninnar. Lokakeppnin árið 1992 var haldin í Svíþjóð og því var ekki langt fyrir danska stuðningsmenn að fara en þeir fengu hins vegar lítinn fyrirvara. Skemmri fyrirvara en almenn gerist.

Árið 1992 var mun erfiðara að vinna sér sæti í lokakeppnum á EM í knattspyrnu hvað það varðar að í lokakeppninni áttu einungis að vera allra bestu þjóðirnar. Liðin þurftu að vinna sinn riðil í undankeppninni til að komast inn. Það gerði danska liðið ekki heldur hafnaði í öðru sæti á eftir firnasterku liði sameinaðrar Júgóslavíu. 

Sósíalíska sambandslýðveldið Júgóslavía var hins vegar ekki jafn samstillt og íþróttalið landsins voru. Lýðveldið var að gliðna í sundur og borgarastyrjöld hófst 1991 eða sama ár og undankeppninni lauk. Nokkurn tíma tók fyrir íþróttaheiminn að komast að niðurstöðu hvað gera skyldi við íþróttaliðin frá Júgóslavíu. Knattspyrnuliðið var til alls líklegt en Rauða Stjarnan frá Belgrað hafði orðið Evrópumeistari árið 1991. Körfuboltalandslið Júgóslavíu hafði fengið siilfurverðlaun á HM karla 1990 og handboltalandsliðið lék um verðlaun á HM karla sama ár.

Ekki var útséð með að lið Júgóslavíu yrði ekki með á EM 1992 en lið frá gömlu Sovétríkjunum var til að mynda með í lokakeppninni. Var kallað á íslensku Samband sjálfstæðra ríkja og kepptu Sovétmenn einnig undir því nafni á Ólympíuleikunum í Barcelona síðar um sumarið 1992. Munurinn á gömlu Júgóslavíu og gömlu Sovétríkjunum var hins vegar sá að borgarastyrjöld ríkti á Balkanskaganum. Svo fór að Júgóslavíu var meinað að senda lið í lokakeppnina og því var eðlilegt að Danmörk tæki sæti þeirra eftir að hafa hafnað í öðru sæti í riðli Júgóslavíu í undankeppninni. 

Minni væntingar en 1988

Þar með var karlalandslið Dana komið í lokakeppnina í þriðja sinn í röð. Í keppninni í Frakklandi árið 1984 vann liðið hug og hjörtu samlanda sinna. Danir komust þá í undanúrslit en féllu úr keppni eftir vítaspyrnukeppni gegn Spáni. Þegar hinn litríki fyrrverandi samherji Arnórs Guðjohnsen hjá Lokeren Preben Elkjær Larsen brenndi af og gekk niðurlútur til baka í rifnum stuttbuxum. 

Miklar væntingar voru gerðar til danska liðsins á EM 1988 en því var öfugt farið á EM 1992. Danir fengu ekki símtalið frá Knattspyrnusambandi Evrópu fyrr en 31. maí og þeir spiluðu fyrsta leikinn í lokakeppninni hinn 11. júní. Liðið fékk því sáralítinn tíma til að skipuleggja sig með lokakeppnina í huga og andstæðingana þar. Auk þess áttu Danir ekki eins skemmtilega knattspyrnumenn og á níunda áratugnum. Til að bæta gráu ofan á svart var stórstjarnan Michael Laudrup ekki í landsliðinu á þessum tíma en hann og þjálfarinn Richard Möller Nielsen áttu víst ekki samleið. 

Dönsku landsliðsmennirnir voru komnir í sumarfrí þegar kallið kom. Útbreiddur er sá misskilningur að Danir hafi mætt óæfðir í lokakeppnina. Að leikmenn hefðu dvalið á sólarströnd í nokkurn tíma þegar að keppninni kom og verið kærulausir í mat og drykk frá því deildakeppnum í Evrópu lauk í maí. Hið rétta er hins vegar að danski hópurinn hafði af saman af kostgæfni eftir að deildakeppnum lauk og leikmenn voru nýfarnir í sumarfrí. Munurinn var fyrst og fremst sá að þeir höfðu verið með hugann við næstu undankeppni HM sem hófst haustið eftir en ekki andstæðingana á EM. Við vitum því ekki hvort lið geti farið óæfð inn í lokakeppni EM og unnið. 

Lítt þekkt nöfn í sviðsljósinu

Lengi vel voru átta lið í lokakeppni EM sem spiluðu í tveimur fjögurra liða riðlum. Tvö efstu liðin í riðlinum léku í kross í undanúrslitum. Danir gerðu markalaust jafntefli gegn Englendingum, töpuðu 1:0 fyrir gestgjöfunum Svíum en unnu Frakka 2:1. Sigurmarkið skoraði Lars Elstrup leikmaður OB og fyrrverandi leikmaður Luton á 78. mínútu. Svíar og Danir komust þar með áfram á kostnað Frakka og Englendinga. 

Kim Christofte fagnar eftir að hafa afgreitt síðasta vítið í …
Kim Christofte fagnar eftir að hafa afgreitt síðasta vítið í netið gegn Hollandi. AFP/Patrick Hertzog

Eins og á HM 1990 þá bauð keppnin ekki upp á mörg mörk en leikur Dana og Hollendinga í undanúrslitum bauð upp á skemmtun og dramatík. 2:2 var staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu en Danir höfðu betur eftir vítaspyrnukeppni. Markvörðurinn Peter Schmeichel varði vítaspyrnu frá sjálfum Marco Van Basten.

Schmeichel hafði þá leikið eitt tímabil með Manchester United en eftir frammistöðuna á EM var hann skyndilega kominn í hóp bestu markvarða heims. Hann átti stærstan þátt í sigri Dana á EM en hann hélt hreinu í úrslitaleiknum gegn Þjóðverjum. John Jensen og Kim Vilfort leikmenn Bröndby skoruðu mörkin í 2:0 sigri. 

Til tilbreytingar voru lítt þekktir leikmenn að skora mikilvægustu mörkin í lokakeppni. Í þetta skiptið voru það ekki Jürgen Klinsmann, Ruud Gullit eða Gary Lineker heldur Henrik Larsen, Elstrup, Jensen og Vilfort svo ekki sé minnst á miðvörðinn Kim Christofte sem skoraði úr síðasta vítinu í vítaspyrnukeppninni gegn Hollandi.

Greinin birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. júlí 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert