Arnór snýr aftur til Norrköping

Arnór Ingvi Traustason í leik með Norrköping.
Arnór Ingvi Traustason í leik með Norrköping. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er að ganga aftur í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping þar sem hann hefur gert munnlegt samkomulag um að skrifa undir langtímasamning.

Sænski miðillinn Aftonbladet greinir frá, kveðst hafa heimildir fyrir og að formlega verði tilkynnt um vistaskiptin innan skamms.

Arnór Ingvi var á mála hjá Norrköping frá 2014 til 2016 og varð sænskur meistari með liðinu árið 2015. Hann hélt þá til Rapid Vín í Austurríki, fór þaðan til Malmö í Svíþjóð.

Í upphafi síðasta árs söðlaði hann um og skipti til New England Revolution í bandarísku MLS-deildinni.

Þar hefur Arnór Ingvi ekki átt fast sæti undanfarið eitt og hálft ár og hefur því afráðið að snúa aftur til Íslendingafélagsins Norrköping

Þar mun hann hitta fyrir þá Ara Frey Skúlason, Arnór Sigurðsson, Andra Lucas Guðjohnsen og Jóhannes Kristin Bjarnason, auk þess sem Oliver Stefánsson, sem er á láni hjá ÍA, er einnig á mála hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert