Átta mörk skoruð í fyrsta leik Söru með Juventus

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í leik gegn Ítalíu á EM …
Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í leik gegn Ítalíu á EM 2022 fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið Juventus í knattspyrnu mætti svissneska liðinu Servette í vináttuleik í Sviss í dag þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði lék sinn fyrsta leik fyrir ítalska stórveldið.

Sara Björk var í byrjunarliðinu og lék fyrstu 78 mínúturnar á miðjunni.

Staðan var 4:1, Juventus í vil, í leikhléi, en Servette svaraði með þremur mörkum í síðari hálfleik og jafnaði þannig metin í 4:4.

Staðan var 4:3 þegar Sara Björk fór af velli.

Hún skipti til Ítalíumeistaranna fyrir EM 2022 á Englandi eftir tveggja ára dvöl hjá Lyon, þar sem hún vann Meistaradeild Evrópu í tvígang og varð Frakklandsmeistari einu sinni.

mbl.is