Neymar gerði tvö í stórsigri

Neymar fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Neymar fagnar öðru marki sínu í kvöld. AFP/Stephane De Sakutin

Frakklandsmeistarar París SG áttu ekki í neinum vandræðum með að leggja Montpellier af velli, 5:2, í frönsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld.

Kylian Mbappé fékk gott tækifæri til að skora fyrsta markið á 23. mínútu en Jonas Omlin í marki Montpellier varði víti frá honum. Fyrsta markið kom loks á 39. mínútu þegar Falaye Sacko setti boltann í eigið mark.

PSG fékk annað víti á 43. mínútu og þá skoraði Neymar og sá til þess að staðan í leikhléi væri 2:0. Neymar var aftur á ferðinni á 51. mínútu með sitt annað mark og þriðja mark PSG.

Wahbi Kahzri minnkaði muninn fyrir Montpellier á 58. mínútu en Kylian Mbappé gerði fjórða mark PSG á 69. mínútu og Renato Sanches fimmta markið á 87. mínútu. Enzo Mbiayi klóraði í bakkann fyrir Montpellier í uppbótartíma.

PSG hefur farið vel af stað í deildinni á leiktíðinni og unnið tvo stórsigra í fyrstu tveimur umferðunum, 5:0 og 5:2.  

mbl.is