Guðlaugur Victor beint í byrjunarlið hjá Rooney

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður.
Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Nóg var um að vera hjá Íslendingunum sem spila í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt. 

Wayne Rooney stillti Guðlaugi Victor Pálssyni upp í byrjunarliði sínu þegar lið þeirra, DC United mætti í nótt New England Revolution, sem Arnór Ingvi Traustason yfirgaf á dögunum. Þetta var fyrsti leikur Victors með DC United sem keypti hann af Schalke í Þýskalandi á dögunum.

Guðlaugur Victor spilaði allan tímann og fékk gult spjald en  DC United tapaði leiknum 0:1 og eru því í neðsta sæti í Austurdeild MLS.

 Houston Dynamo og CF Montréal mættust og Þorleifur Úlfarsson, hjá Houston Dynamo og Róbert Orri Þorkelsson, hjá CF Montreal, gerðu leikinn að Íslendingaslag undir lokin þegar þeir komu inn á sem varamenn hjá liðum sínum.  CF Montréal vann leikinn 3:2 og er því með 43 stig í öðru sæti Austurdeildar á meðan Houston Dynamo er aðeins með 25 stig í 12. sæti Vesturdeildar.

Í B-deildinni var Óttar Magnús Karlsson ekki í leikmannahópi þegar lið hans Oakland Roots gerði 1:1 jafntefli gegn Detroit. Samkvæmt Fótbolti.net var hann ekki með vegna þess að hann og kærastan hans voru að eignast barn.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og stöllur í Orlando Pride unnu San Diego Wave 1:0 þegar liðin mættust NWSL-deildinni í nótt. Gunnhildur kom inn á sem varamaður á 64. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert