Landsliðsmarkvörðurinn fer til Tyrklands

Rúnar Alex Rúnarsson er að ganga til liðs við Alanyaspor …
Rúnar Alex Rúnarsson er að ganga til liðs við Alanyaspor í Tyrklandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Arsenal á Englandi, mun leika með tyrkneska úrvalsdeildarfélaginu Alanyaspor á komandi keppnistímabili.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en í færslu hans kemur fram að Rúnar Alex sé búinn að skrifa undir eins árs lánssamning í Tyrklandi.

Rúnar Alex, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Arsenal frá franska 1. deildarfélaginu Dijon sumarið 2020 en hann hefur einungis komið við sögu í sex leikjum með enska félaginu.

Hann eyddi síðasta tímabili á láni hjá OH Leuven í belgísku A-deildinni en Alanyaspor hafnaði í fimmta sæti tyrknesku deildarinnar á síðustu leiktíð.

Liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 4 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en samkvæmt fréttamiðlum í Tyrklandi verður tilkynnt um félagaskiptin á næsta sólahringnum.

Rúnar Alex er uppalinn hjá KR í Vesturbænum en alls á hann að baki 17 A-landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert