Valskonur nýttu ekki færin í Meistaradeildinni

Sólveig Larsen með boltann í dag.
Sólveig Larsen með boltann í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Tereza Kozárová skoraði sigurmark Slavia Prag þegar liðið mætti Val í fyrri leik liðanna í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

Leiknum lauk með 1:0-sigri tékkneska liðsins en eina mark leiksins kom um miðjan fyrri hálfleikinn.

Tékkarnir byrjuðu leikinn betur og á 10. mínútu fékk Tereza Kozárová frábært færir til þess að koma Slavia Prag yfir.

Hún fór illa með Mist Edvardsdóttur og var ein gegn Söndru Sigurðardóttur en skotið beint á markvörðinn sem varði. Frákastið datt fyrir Martinu Surnovská en skalli hennar fór beint í fangið á Söndru.

Arna Sif Ásgrímsdóttir fékk fínasta færi til að jafna metin fyrir Val á 12. mínútu en skalli hennar eftir hornspyrnu frá hægri fór yfir markið.

Á 25. mínútu fékk Kozárová sitt annað dauðafæri í leiknum þegar hún átt frítt skot í markteignum en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Söndru að verja frá henni.

Mínútu síðar átti Kozárová svo fyrirgjöf frá vítateigshorninu. Martina Surnovská hljóp yfir sendinguna og boltinn lak í fjærhornið.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði síðari hálfleiks og Tékkarnir leiddu því 1:0 í hálfleik.

Valskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og Cyera Hintzen var nálægt því að jafna metin fyrir Val strax á 49. mínútu þegar hún var við það að sleppa í gegn. Skot hennar fór hins vegar beint á Olivie Lukásovu í marki Slavia Prag.

Fimm mínútum síðar átti Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skot í utanverða stöngina eftir laglegan undirbúning Ásdísar Karenar Halldórsdóttur.

Á 58. mínútu fengu Valskonur sitt besta færi í leiknum þegar Ásdís Karen sendi Cyeru eina í gegn. Cyera komst ein gegn Lukásovu en markvörðurinn varði meistaralega frá henni. Frákastið datt fyrir Sólveigu Larsen en Lukásová varði frá henni líka.

Valskonur héldu áfram að pressa og á 63. mínútu átti Ásdís Karen flotta fyrirgjöf frá hægri sem Anna Rakel Pétursdóttir skallaði rétt framhjá marki Tékkanna.

Michaela Khýrová átti fína fyrirgjöf frá vinstri á 70. mínútu, beint fyrir fætur Denisu Veselá sem var mætt á fjörstöngina en skot hennar fór yfir markið.

Valskonur settu mikla pressu á Tékkana á síðustu mínútunum en tókst hins vegar ekki að skora og lokatölur á Hlíðarenda því 1:0 fyrir Slavia Prag.

Liðin mætast á nýjan leik í Prag í Tékklandi eftir viku, 28. september, og þurfa Valskonur á sigri að halda til þess að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Valur 0:1 Slavia Prag opna loka
90. mín. Ásdís Karen Halldórsdóttir (Valur) á skot sem er varið Ásdís Karen með skot sem Lukásová ver.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert