Fimmtán landsliðskonur neita að spila

Frá leik Spánar og Finnlands á EM í sumar.
Frá leik Spánar og Finnlands á EM í sumar. AFP

Fimmtán landsliðskonur Spánar í fótbolta hafa neitað að spila með landsliði þjóðar sinnar á meðan Jorge Vilda er enn landsliðsþjálfari.

Eru þær ósáttar með vinnubrögð Vilda, en þrátt fyrir stöðuna stendur spænska knattspyrnusambandið með þjálfaranum.

„Spænska knattspyrnusambandið fékk tölvupóst frá 15 leikmönnum kvennalandsliðsins, þar sem þær hóta því að hætta með landsliðinu.

Sambandið ætlar ekki að leyfa leikmönnum að hafa áhrif á ráðningu á landsliðsþjálfara og hans teymi, þar sem það er ekki í þeirra verkahring,“ segir m.a. í yfirlýsingu spænska sambandsins.

Þar kemur einnig fram að leikmennirnir fimmtán fá ekki að snúa aftur í landsliðið, nema þær viðurkenni að þær hafi gert mistök og biðjist afsökunar.

Í tölvupóstunum kemur m.a. fram að Vilda hafi slæm áhrif á andlega heilsu leikmanna, en ekki er farið nánar út í hvers vegna hann hafi slík áhrif. 

mbl.is