Sektaður fyrir að hrinda konu

David Silva í leik með Manchester City.
David Silva í leik með Manchester City. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn David Silva þarf að greiða 1.000 evru sekt fyrir að grípa um handlegg konu og hrinda henni í jörðina í átökum á Kanaríeyjum í sumar.

Staðarblaðið Tiempo de Canarias, sem hefur réttarskjöl vegna málsins undir höndum, greinir frá.

Silva leikur um þessar mundir með Real Sociedad í heimalandinu eftir að hafa gert garðinn frægan með Manchester City um langt árabil þar á undan.

Atvikið átti sér stað á Maspalomas kjötkveðjuhátíðinni í júní síðastliðnum. Fernando Silva, bróðir David, og annar ónefndur maður, áttu einnig hlut að máli.

Dómstóll á eyjunni úrskurðaði að Silva skyldi greiða sektina fyrir að „hafa fyrirætlað að grafa undan líkamlegum heilindum“ fórnarlambsins með því að „grípa harkalega um handlegg hennar til þess að hrinda henni burt, sem varð þess valdandi að hún féll til jarðar,“ að því er kom fram í réttarskjölum.

Konan unga hlaut aðhlynningu lækna á staðnum. Á meðal meiðsla sem hún er sögð hafa orðið fyrir eru álagseymsli í leghálsi, áverkar á vinstri olnboga auk marbletta á hnjám og fingri vinstri handar.

mbl.is