England fallið í B-deild – Ungverjar skelltu Þjóðverjum

Giacomo Raspadori skorar sigurmark Ítalíu gegn Englandi í kvöld.
Giacomo Raspadori skorar sigurmark Ítalíu gegn Englandi í kvöld. AFP/Marco Bertorello

England er fallið niður í B-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla eftir 0:1-tap fyrir Ítalíu þar í landi í riðli 3 í A-deild keppninnar í kvöld. Ungverjaland heldur þá áfram að koma á óvart í riðlinum og vann 1:0-sigur á heimamönnum í Þýskalandi.

Giacomo Raspadori skoraði sigurmark Ítalíu gegn Englandi um miðjan síðari hálfleik.

Eftir fimm leiki er England án sigurs með aðeins 2 stig á botni riðilsins og getur ekki lengur jafnað Þýskaland eða Ítalíu að stigum þegar aðeins ein umferð er eftir.

Ítalía er með 8 stig í öðru sæti.

Ádám Szalai skoraði sigurmark Ungverjalands gegn Þýskalandi eftir rúmlega stundarfjórðungs leik og sá þannig til þess að Ungverjar eru enn á toppi riðils 3.

Ungverjaland er með 10 stig og Þýskaland er í þriðja sæti riðilsins með 6 stig.

Í lokaumferðinni á mánudag mætast Ungverjaland og Ítalía. Þar nægir Ungverjum jafntefli til þess að tryggja sér sigur í riðlinum. Ítalía þarf hins vegar á sigri að halda.

mbl.is
Loka