Fyrstudeildarfélag í úrvalsdeild

Freyr Alexandersson stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina í vor …
Freyr Alexandersson stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina í vor en bíður ennþá eftir fyrsta sigrinum á þessu tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lyngby, með Frey Alexandersson sem þjálfara og Alfreð Finnbogason og Sævar Atla Magnússon sem framherja, er ekki á sama stað og önnur félög í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hvað varðar fjárhagslega burði.

Lyngby vann sér sæti í deildinni síðasta vor, á fyrsta tímabili Freys sem þjálfara, en hefur ekki unnið leik í fyrstu tíu umferðunum á þessu tímabili og situr á botninum.

Tipsbladet segir í umfjöllun um Lyngby í dag að möguleikarnir á að félagið haldi sér í deildinni séu mjög litlir, sérstaklega vegna þess að það sé í raun rekið sem 1. deildarfélag í úrvalsdeild. Þegar rekstur allra atvinnuliða í Danmörku sé skoðaður sé Lyngby aðeins í sautjánda sæti, neðst þeirra tólf félaga sem skipa úrvalsdeildina, og 1. deildarfélög eins og Vejle og SönderjyskE séu með meira umfang í sínum rekstri og leikmannamálum.

Þá sé reynslan sú að eigendur Lyngby séu ekki tilbúnir til að spenna bogann of hátt í peningamálunum, jafnvel þó það geti kostað félagið fall úr úrvalsdeildinni eftir eins árs dvöl. 

Mathias Kristensen, sem Lyngby keypti af Nyköbing í sumar, kostaði um 15 milljónir íslenskra króna og er dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Alfreð kom til félagsins án greiðslu þar sem samningur hans við Augsburg rann út í sumar.

Tipsbladet segir að helstu framtíðarvonir Lyngby séu fólgnar í því að erlendir fjárfestar sem vilji gera sig gildandi í Kaupmannahöfn og nágrenni en séu ekki tilbúnir til að greiða fáránlegar upphæðir fyrir FC Köbenhavn eða Bröndby, átti sig á því að Lyngby gæti verið vænlegur kostur. Að öðrum kosti sé erfitt að sjá fyrir sér að Lyngby geti tekið það skref að verða alvöru úrvalsdeildarfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert