Son jafnaði á síðustu stundu

Son Heung-min fagnar jöfnunarmarkinu í dag.
Son Heung-min fagnar jöfnunarmarkinu í dag. AFP/Jung Yeon-je

Son Heung-min, leikmaður Tottenham, tryggði Suður-Kóreu jafntefli gegn Kostaríka, 2:2, í vináttulandsleik þjóðanna sem fram fór í Goyang í Suður-Kóreu í dag.

Son jafnaði metin á 85. mínútu, beint úr aukaspyrnu, eftir að markvörður Kostaríka, Esteban Alvarado, var rekinn af velli fyrir að handleika boltann utan vítateigs.

Hwang Hee-chan kom Suður-Kóreu yfir á 28. mínútu en Jewison Bennette svaraði með tveimur mörkum fyrir Kostaríka.

Bæði liðin eru á leið á HM í Katar í nóvember.

mbl.is