Arftakinn skákaði Haaland

Benjamin Sesko fagnar sigurmarki sínu í dag.
Benjamin Sesko fagnar sigurmarki sínu í dag. AFP/Jure Makovec

Benjamin Sesko, sóknarmaður Red Bull Salzburg, reyndist hetja Slóveníu þegar liðið vann góðan 2:1-endurkomusigur á Noregi í riðli 4 í B-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla í dag.

Erling Haaland, forveri hans hjá Salzburg og núverandi sóknarmaður Manchester City, kom Noregi á bragðið í upphafi síðari hálfleiks.

Um miðjan hálfleikinn jafnaði Andraz Sporar metin fyrir heimamenn í Slóveníu eftir undirbúning Sesko.

Hann skoraði svo sigurmarkið á 81. mínútu og tryggði þannig nauman sigur.

Slóvenía er eftir sigurinn í þriðja sæti riðilsins með 5 stig. Noregur er áfram á toppnum með 10 stig.

Norður-Írland vann þá mikilvægan 2:1-sigur á Kósóvó í riðli 2 í C-deildinni.

Vedat Muriqi kom Kósóvó yfir eftir tæplega klukkutíma leik.

Gavin Whyte jafnaði svo metin á 82. mínútu og lagði upp sigurmarkið fyrir Josh Magennis á 90. mínútu.

Norður-Írland er eftir sigurinn í þriðja sæti riðilsins.

mbl.is