Ísland úr leik eftir sigur Ísrael

Thai Baribo reyndist hetja Ísrael í kvöld.
Thai Baribo reyndist hetja Ísrael í kvöld. AFP/Svein Ove Ekornesvåg

Ísrael hafði betur gegn Albaníu, 2:1, þegar liðin mættust í Tel Aviv í Ísrael í kvöld. Um leið tryggðu Ísraelsmenn sér sigur í riðli 2 í B-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla, riðli Íslands.

Shon Weissman kom Ísrael í forystu strax í upphafi síðari hálfleiks.

Seint í leiknum, á 87. mínútu, jafnaði Myrto Uzuni metin fyrir Albaníu.

Hann virtist vera að tryggja Albönum jafntefli, sem hefði komið Íslandi til góða, en á annarri mínútu uppbótartíma skoraði Thai Baribo, sem hafði komið inn á sem varamaður sex mínútum áður, sigurmark Ísraels.

Naumur og dramatískur sigur því í höfn og sömuleiðis sigur í riðlinum þar sem Ísrael er með 8 stig eftir fjóra leiki.

Ísland kemur þar á eftir með 3 stig og Albanía þá með 2 stig.

Aðeins einn leikur er eftir í riðlinum, leikur Albaníu og Íslands á þriðjudagskvöld, og er nú ljóst að hann hefur enga þýðingu þar sem hvorugt liðið getur náð Ísrael að stigum og hvorugt þeirra getur fallið niður í C-deild þar sem einungis þrjú lið eru í riðlinum eftir að Rússlandi var vísað úr keppni.

Ísrael leikur því í A-deild Þjóðadeildarinnar þegar nýtt tímabil af henni hefst og er einnig búið að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á EM 2024, þurfi liðið þess með, en sigurvegarar í umspili A, B, C og D-deilda Þjóðadeildarinnar komast beint á Evrópumótið.

mbl.is