Portúgal á toppinn – Sviss skellti Spáni

Diogo Dalot fagnar öðru marki sínu í kvöld ásamt Cristiano …
Diogo Dalot fagnar öðru marki sínu í kvöld ásamt Cristiano Ronaldo. AFP/Michal Cizek

Portúgal hafði betur gegn Tékklandi á útivelli og Sviss vann óvæntan útisigur á Spáni í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla í kvöld.

Diogo Dalot og Bruno Fernandes, leikmenn Manchester United, voru atkvæðamiklir í markaskorun Portúgals í Tékklandi í kvöld og það sem vakti helst athygli var að hægri bakvörðurinn Dalot skoraði tvívegis.

Hann kom Portúgal í forystu eftir rúmlega hálftíma leik og Fernandes tvöfaldaði svo forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Snemma í síðari háfleik lagði Fernandes svo upp annað mark Dalot og þriðja mark Portúgals.

Átta mínútum fyrir leikslok skoraði Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool, fjórða mark Portúgals eftir undirbúning enn eins leikmanns Man. United, Cristiano Ronaldo.

Þar við sat og 4:0-sigur niðurstaðan.

Í hinum leik riðilsins skoraði Manuel Akanji, miðvörður Manchester City, eitt mark og lagði annað upp í 2:1-sigri á Spáni þar í landi.

Á 21. mínútu kom hann Sviss í forystu en Jordi Alba jafnaði metin fyrir Spán á 55. mínútu.

Aðeins þremur mínútum síðar lagði Akanji svo upp sigurmark Sviss fyrir Breel Embolo.

Portúgal er þar með komið á toppinn í riðli en Spánn fer niður í annað sæti. Sviss fer upp í þriðja sæti og Tékkland er nú í fjórða og neðsta sæti.

Mitrovic skoraði þrennu

Í riðli 1 í B-deildinni hafði Skotland betur gegn Írlandi í hörkuleik.

John Egan kom Írum í forystu eftir 18 mínútna leik en Jack Hendry jafnaði metin fyrir Skota í upphafi síðari hálfleiks.

Ryan Christie skoraði svo sigurmark Skota átta mínútum fyrir leikslok.

Með sigrinum endurheimti Skotland toppsæti riðils 1 þar sem liðið er nú með 10 stig, tveimur stigum meira en Úkraína í öðru sæti.

Írland er í þriðja sæti með 4 stig.

Í riðli 4 í B-deildinni fór Serbía illa með Svíþjóð þar sem Aleksandar Mitrovic, sóknarmaður Fulham, skoraði þrennu.

Viktor Claesson kom Svíþjóð yfir í Serbíu eftir stundarfjórðungs leik en aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Mitrovic metin.

Hann kom Serbíu svo í forystu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og fullkomnaði þrennuna strax í upphafi síðari hálfleiks.

Mitrovic hefur nú skoraði 49 mörk í 75 landsleikjum fyrir Serbíu.

Sasa Lukic innsiglaði svo 4:1-sigur með marki á 70. mínútu.

Serbía er eftir sigurinn í öðru sæti riðilsins með 10 stig, jafnmörg og topplið Noregs. Noregur og Serbía mætast í hreinum úrslitaleik um toppsætið á þriðjudagskvöld.

Svíþjóð er á botni riðilsins með 3 stig.

Kýpur vann nágrannaslaginn

Í riðli 2 í C-deildinni vann Kýpur svo nauman sigur á nágrönnum sínum í Grikklandi.

Marinos Tzionis skoraði sigurmark Kýpverja á 18. Mínútu og tryggði 1:0-sigur.

Með sigrinum fer Kýpur upp úr botnsæti riðilsins og í þriðja sætið, þar sem liðið er með 5 stig, jafnmörg og botnlið Norður-Írlands.

Grikkland er með 12 stig í efsta sæti riðilsins, er þegar búið að tryggja sér sigur í honum og er því komið upp í B-deild.

mbl.is