Púað á Southgate - Sagði tapið hafa verið skref í rétta átt

Southgate ásamt Harry Kane, fyrirliða Englands eftir leik í gær.
Southgate ásamt Harry Kane, fyrirliða Englands eftir leik í gær. AFP/Marco Bertorello

Púað var á Gareth Southgate, þjálfara enska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir 1:0-tap gegn Ítalíu í A-deild Þjóðardeildarinnar í gær. Tapið þýddi það að England er fallið niður í B-deild.

Einungis tveir mánuðir eru í að heimsmeistaramótið í Katar hefjist en Englendingar hafa ekki unnið í fimm leikjum í röð. Þá hefur liðið ekki skorað mark úr opnum leik í jafn langan tíma en Harry Kane skoraði úr vítaspyrnu gegn Þýskalandi í júní.

Stuðninsmenn enska landsliðsins eru því eðlilega áhyggjufullir en þeir létu vel í sér heyra eftir að flautað hafði verið til leiksloka í gærkvöldi. Southgate var þó nokkuð rólegur yfir því.

„Ég skil viðbrögð stuðningsmanna vel. Þessi úrslit eru vond og þeim fylgja eðlilega tilfinningar. 

Það er erfitt fyrir mig að gagnrýna frammistöðuna. Við vorum meira með boltann og áttum fleiri skot. Við spiluðum vel stærstan hluta leiksins en hefðum nokkrum sinnum getað gert betur varnarlega og á síðasta þriðjungi.

Það var mikið af góðum einstaklingsframmistöðum og frammistaða liðsins var klárlega skref í rétta átt en ég get vel skilið að fólk sé ekki sammála því út á við.“

Fyrsti leikur Englands á HM er gegn Íran þann 21. september næstkomandi.

mbl.is