Nökkvi Þeyr kominn á blað í Belgíu

Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar marki fyrir KA. Hann er enn …
Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar marki fyrir KA. Hann er enn markahæstur í Bestu deildinni með 17 mörk. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Dalvíkingurinn Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði fyrir belgíska B-deildarliðið Beerschot er liðið vann 4:0-útisigur á Royal Knokke í fimmtu umferð belgísku bikarkeppninnar í dag.

Er þetta fyrsta markið sem Nökkvi skorar fyrir Beerschot í þriðja leik sínum með liðinu frá því að hann flutti sig yfir til Belgíu frá KA fyrr í mánuðinum.

Thibo Baeten kom Beerschot á bragðið strax á sjöundu mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Ryan Sanusi bætti við öðru markinu á 49. mínútu áður en Nökkvi bætti við þriðja markinu fjórum mínútum síðar.

Mardochee Nzita setti svo punktinn yfir i-ið með fjórða markinu 16 mínútum fyrir leikslok, lokatölur 4:0.

mbl.is