Óttar Magnús skoraði jöfnunarmark Oakland í nótt

Óttar Magnús Karlsson
Óttar Magnús Karlsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttar Magnús Karlsson skoraði jöfnunarmark Oakland Roots í 1:1-jafntefli á útivelli gegn Colorado Springs í bandarísku B-deildinni í nótt. Óttar hefur skorað 17 mörk í deildinni á keppnistímabilinu og er í þriðja sæti yfir þá markahæstu í deildinni.

Ganverjinn Elvis Amoh kom heldur betur við sögu í leiknum. Amoh kom Colorado í 1:0 strax á 1. mínútu leiksins með frábæru firnaföstu viðstöðulausu skoti utan teigs upp í bláhornið, algjörlega óverjandi fyrir Paul Blanchette í marki gestanna. Snemma í seinni hálfleik fékk hann svo tvö gul spjöld með stuttu millibili. Seinna spjaldið fékk hann fyrir að verja aukaspyrnu með hendinni innan vítateigs, sem Óttar sótti og tók sjálfur. Dómari leiksins átti engra annarra kosta völ en að benda á punktinn og senda Amoh í bað.

Óttar Magnús skoraði sjálfur úr spyrnunni með föstu vinstrifótarskoti sem Jefferson Caldwell í marki heimamanna réð ekki við. Fleiri mörk voru ekki skoruð á Weidner Field í Colorado, lokatölur 1:1.

Óttar var líflegur í leiknum og auk þess að hafa sótt aukaspyrnuna sem hann tók sjálfur og breytt í vítaspyrnu með hjálp Amoh, og skorað úr henni sitt 17. mark á keppnistímabilinu, var hann sífellt ógnandi og skapaði bæði sér og liðsfélögum sínum ágætis færi.

Oakland er í áttunda sæti Vesturdeildar með 40 stig eftir 31 leik. Colorado er í því þriðja með 52 stig eftir 32 leiki. Næsti leikur Oakland er á heimavelli gegn Birmingham Legion um næstu helgi.

mbl.is