Kane nálgast Rooney óðfluga

Harry Kane fagnar marki sínu í kvöld.
Harry Kane fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Harry Kane skoraði í kvöld 51. mark sitt fyrir enska karlalandsliðið í knattspyrnu og er nú aðeins tveimur mörkum á eftir markahæsta leikmanni í sögu karlalandsliðsins, Wayne Rooney.

Kane kom Englandi í 3:2 með fádæma öruggri vítaspyrnu seint í leik gegn Þýskalandi í Þjóðadeild UEFA í kvöld, en leiknum lauk með 3:3-jafntefli.

Rooney skoraði 53 mörk í 120 landsleikjum á árunum 2003 til 2018.

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Kane, sem er enn aðeins 29 ára, hrifsi markametið af Rooney.

Hefur Kane skorað mörkin 51 í aðeins 75 landsleikjum frá árinu 2015 og ekki útlit fyrir annað en að metið verði stórslegið áður en landsliðsskór hans fara á hilluna, hvenær svo sem það verður.

mbl.is