Zlatan leikur í nýrri kvikmynd um Ástrík og Steinrík (myndskeið)

Zlatan Ibrahimovic reynir fyrir sér í kvikmyndabransanum.
Zlatan Ibrahimovic reynir fyrir sér í kvikmyndabransanum. AFP/Isabella Bonotto

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic fer með hlutverk í nýrri leikinni kvikmynd um ævintýri Gaulverjanna ógnarsterku Ástríks og Steinríks.

Zlatan, sem á að baki magnaðan feril sem knattspyrnumaður þar sem hann hefur verið á mála hjá stórliðum Barcelona, Ajax, Juventus, Inter Mílanó, París Saint-Germain, Manchester United og nú (og áður) hjá Ítalíumeisturum AC Milan, reynir nú fyrir sér sem leikari í fyrsta skipti.

Hann mun fara með hlutverk Oneofus, rómversks riddara, sem berst við Ástrík og Steinrík og aðra Gaulverja á tímum Rómaveldis.

Sjá má Zlatan bregða fyrir í Ástríki og Steinríki: Miðríkið, í stiklu hér að neðan.

Myndin verður frumsýnd í Frakklandi í byrjun febrúar á næsta ári.

mbl.is