Banana kastað í átt að Richarlison

Richarlison fagnar marki sínu í gærkvöld.
Richarlison fagnar marki sínu í gærkvöld. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Knattspyrnumaðurinn Richarlison, leikmaður Tottenham Hotspur og brasilíska landsliðsins, varð fyrir kynþáttaníði af hálfu áhorfanda þegar banana var kastað í átt að honum er hann fagnaði marki í leik með Brasilíu gegn Túnis í vináttulandsleik í París í gærkvöldi.

Brasilíska landsliðið hafði stillt sér upp fyrir liðsmyndatöku fyrir leikinn með borða með skilaboðum gegn kynþáttaníði. Þar stóð: „Án þeldökkra leikmanna okkar værum við ekki með stjörnur á treyju okkar.“

Richarlison, sem er dökkur á hörund, kom Brasilíu í 2:1 í 5:1-sigri og fagnaði marki sínu þegar banana var fleygt inn á völlinn og virtist ætlað að hæfa hann.

„Svo lengi sem þetta er bara „bla bla bla“ og engum er refsað mun þetta halda áfram svona og gerist daglega út um allt. Ég hef engan tíma fyrir þetta vinur!“ skrifaði Richarlison á twitter-aðgangi sínum eftir leikinn.

Knattspyrnusamband Brasilíu sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem kynþáttaníðið var fordæmt. Sagðist sambandið áfjáðara en nokkru sinni fyrr í að berjast gegn kynþáttafordómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert