Landsliðsmenn Írans mótmæltu ástandinu

Íranir fagna marki Sardars Azmoun í leiknum við Senegal í …
Íranir fagna marki Sardars Azmoun í leiknum við Senegal í gær. AFP/Jakub Sukup

Íranska karlalandsliðið í knattspyrnu sýndi í gær stuðning þeim mótmælum sem staðið hafa yfir í Íran undanfarið vegna andláts ungrar konu sem lést af völdum pyntinga í haldi lögreglunnar.

Íran mætti Senegal í vináttulandsleik sem fram fór í Maria Enzersdorf í Austurríki í gær, á sama velli og Ísland lék gegn Venesúela í síðustu viku.

Sardar Azmoun gengur svartklæddur inn á völlinn fyrir leikinn.
Sardar Azmoun gengur svartklæddur inn á völlinn fyrir leikinn. AFP/Jakub Sukup

Írönsku leikmennirnir gengu inn á völlinn í svörtum jökkum sem eru tákn um andstöðuna við einræðisstjórnina í Íran.

„Ég þoli þetta ástand ekki lengur og þótt þessi mótmæli kosti mig sæti í landsliðinu, þá eru þau þess virði. Þau eru þess virði ef þau koma í veg fyrir að fleiri írönskum konum verði fórnað. Lengi lifi íranskar konur,“ skrifaði Sardar Azmoun, leikmaður Leverkusen í Þýskalandi, á Instagram eftir leikinn en hann skoraði mark íranska liðsins í leiknum og er að óbreyttu á leið með því á HM í Katar í nóvember.

Hollenskir fjölmiðlar skýrðu frá því í gær að Ali Karimi, einn þekktasti knattspyrnumaðurinn í sögu Írans, eigi yfir höfði sér ákæru í heimalandinu fyrir mótmæli. Hann lék 127 landsleiki fyrir Íran og lék m.a. í tvö ár með Bayern München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert