Landsliðsþjálfari grunaður um að áreita landsliðsmenn kynferðislega

Devis Mangia, landsliðsþjálfari Möltu, til hægri.
Devis Mangia, landsliðsþjálfari Möltu, til hægri. Ljósmynd/Malta

Devis Mangia, landsliðsþjálfari karlaliðs Möltu í knattspyrnu, hefur verið sendur í leyfi frá störfum eftir að tveir leikmenn landsliðsins sökuðu hann um kynferðislega áreitni.

Það er maltneski miðillinn Malta Today sem greinir frá þessu en leikmennirnir létu forráðamenn knattspyrnusambandsins þar í landi vita af hegðun þjálfarans á sunnudaginn síðasta.

Mangia, sem er 48 ára gamall Ítali, hefur áður komið sér í fjölmiðla fyrir hegðun sína utan vallar. Hann var sakaður um að eiga í óviðeigandi sambandi við leikmann sinn þegar hann stýrði liði Universitatea Craiova í Rúmeníu frá 2017 til 2019.

Þá var hann einnig sakaður um að hafa átt í óviðeigandi sambandi við leikmann árið 2016 þegar hann stýrði Ascoli á Ítalíu.

Þjálfarinn tók við landsliði Möltu árið 2019 en hann hefur meðal annars stýrt U21-árs landsliði Ítala á þjálfaraferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert