Sara Björk skoraði í Meistaradeildinni

Sara Björk Gunnarsdóttir kemur Juventus yfir gegn Köge í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir kemur Juventus yfir gegn Köge í kvöld. Ljósmynd/@JuventusFCWomen

Sara Björk Gunnarsdóttir var á skotskónum fyrir Juventus þegar liðið vann 2:0-sigur gegn Köge frá Danmörku í síðari leik liðanna í 2. umferð Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Ítalíu í kvöld.

Sara Björk kom Juventus yfir með skalla strax á 11. mínútu áður en Sofia Cantore tvöfaldaði forystu ítalska liðsins á 77. mínútu.

Sara Björk lék fyrstu 78. mínúturnar með Juventus sem vann einvígið samanlagt 3:1 og ítalska liðið verður því í pottinum þegar dregið verður í riðlakeppnina í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss 3. október.

mbl.is