Slær 46 ára gamalt met um helgina

Koke í baráttu við Luka Modric í leik Atlético Madríd …
Koke í baráttu við Luka Modric í leik Atlético Madríd og Real Madríd á dögunum. AFP/Javier Soriano

Spænski knattspyrnumaðurinn Koke, fyrirliði Atlético Madríd, mun um helgina slá félagsmet þegar liðið heimsækir Sevilla í spænsku 1. deildinni.

Taki hann þátt í leiknum, sem allar líkur eru á, verður hann leikjahæsti leikmaður Atlético í sögu félagsins.

Sem stendur hefur Koke leikið 553 keppnisleiki fyrir Atlético, jafnmarga og Adelardo Rodríguez, sem hefur átt metið frá árinu 1976, en hann lék samfleytt með liðinu frá árinu 1959 og var orðinn 37 ára gamall þegar hann lagði skóna á hilluna 1976.

Koke er enn aðeins þrítugur og hefur leikið með Atlético allan sinn feril. Hann lék sinn fyrsta leik 17 ára gamall árið 2009.

Koke hefur raunar verið hjá félaginu alla tíð, eða síðan hann var sex ára gamall.

Hann hefur tvívegis unnið spænsku deildina með liðinu, spænska bikarinn einu sinni og Evrópudeildina í tvígang.

mbl.is